Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Námskeið um kennslu bóklegra greina Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins

Starfsfólk og kennarar hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða sátu á námskeiði þriðjudaginn 18. ágúst. Var þetta annað námskeiðið sem Fræðslumiðstöð Vestfjarða heldur fyrir starfsfólk sitt nú í upphafi skólaársins. Að þessu sinni var fjallað um kennslu á námsskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (Fa). Einkum var fjallað um námsskrá sem kallast Nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum og framhaldsskólar geta metið jafngilda og á móti upphafsáföngum í stærðfæði og tungumálum. Leiðbeinandi á námskeiðinu var Ásmundur Hilmarsson sérfræðingur hjá Fa.

Fullorðinsfræðslan er það menntastig sem er nú í örastri þróun. Lögð er áhersla á að þróa kennsluaðferðir sem henta fullorðnu fólki sem best. Sama á við um aðferðir við námsmat. Námsskrár Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins taka mið af þessum nýju viðhorfum í fullorðinsfræðslu. Þess vegna er mjög mikilvægt að þeir sem taka að sér kennslu, eða leiðsögn eins og fremur er sagt í fullorðinsfræðslunni, kynnist þessari nýju hugmyndafræði og þeim aðferðum sem best eru taldar gefast. Þá er ekki síður mikilvægt að þeir sem að fullorðinsfræðslunni koma hittist og geti borðið saman bækur sínar. Þess vegna leggur Fræðslumiðstöðin svo mikið upp úr því að þeir sem vinna fyrir hana hittist og velti stöðugt fyrir sér hvað vel gefst og hvað má bæta. Með því vill Fræðslumiðstöðin efla fagmennsku sína og geta þannig komið betur til móts við alla Vestfirðinga.

Deila