Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Smiðja í hönnun og handverki - kynningarfundur 3. apríl

2. apríl 2013


Miðvikudaginn 3. apríl kl. 18:00 verður kynning í Fræðslumiðstöð Vestfjarða á Ísafirði á Smiðju í handverki og hönnun. Smiðjan er 120 kennslustunda nám sem kennt er samkvæmt námsskrá frá Fræðslumiðtöð atvinnulífsins. Í febrúar var samskonar námskeið í boði fyrir atvinnuleitendur og aðra sem gátu sótt nám á dagtíma og þótti það takast mjög vel. Nú á að kanna hvort áhugi er á að endurtaka leikinn en bjóða upp á kennslu utan hefðbundins vinnutíma.

Smiðjan er sniðin að þörfum þeirra sem vilja fá innsýn í hönnunarferli og kynnast af eigin raun hvað þarf til að þróa nýjar hugmyndir og koma þeim í nothæfan búning. Nemendur fá einnig þjálfun í að afla sér þekkingar og nýta hana til þess að öðlast leikni, hæfni og færni til að framleiða afurð.

Í Smiðjunni verður unnið með þema sem tengist Vestfjörðum og munu þátttakendur þróa hugmyndir og afurðir sem gætu orðið söluvarningur fyrir ferðamenn. Unnið verður í hópum auk þess sem nemendur þróa verkefni hver fyrir sig. Nemendur fá tækifæri til að kynna sér aðferðafræði við markaðsrannsóknir, vöruþróun og markaðssetningu. Unnið verður með mismunandi tækni og efnivið.

Aðalkennari og umsjónarmaður smiðjunnar er Elísabet Gunnarsdóttir, auk hennar munu ýmsir sérfræðingar, hönnuðir og handverksfólk kenna hluta smiðjunnar hver á sínu sviði.

Smiðjan er öllum opin og eru áhugasamir hvattir til að mæta á kynningarfundinn þar sem meðal annars verður rætt um fyrirkomulag og kennslutíma.

Unnið að kappi
Hluti af þátttakendum í Smiðju í hönnun og handverki í febrúar 2013.
Deila