Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Stiklur ? námskeið í fullorðinsfræðslu.

5. nóvember 2008

Mánudaginn og þriðjudaginn 3. og 4. nóvember stóð Fræðslumiðstöð Vestfjarða fyrir námskeiði í fullorðinsfræðslu fyrir starfsfólk sitt og kennara. Námskeiðið var einnig opið og ókeypis fyrir alla aðra sem vildu nýta sér það. Með því var Fræðslumiðstöðin að leggja áherslu á að breiða út þekkingu í samfélaginu á þessu sviði.

Námskeiðið var fengið frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (Fa), en fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar á landsbyggðinni, ásamt nokkrum aðilum á höfuðborgarsvæðinu, hafa gert samninga við Fa um margvíslegt samstarf, sem m.a. felst í að auka fagmennsku við kennslu fullorðinna. Leiðbeinandi á námskeiðinu Sigrún Jóhannesdóttir menntunarfræðingur.

Námskeið það sem kennt var kallast Stiklur og er í 4 þáttum. Á þessu námskeiði voru teknir fyrir 2 þættir. Þeir voru Kennarinn og kröfur til hans og Fullorðnir nemendur og forsendur þeirra. Stefnt er að því að taka hina 2 þættina síðar í vetur.

Leiðbeinendi á námskeiðinu var á Ísafirði, en að auki voru nemendur á Hólmavík og notaður fjarfundabúnaður til að samskiptanna.

Með aukinni sí- og endurmenntun hefur orðið mikil aukning á námi fullorðinna. Jafnframt hefur fólk fundið að þær kennsluaðferðir sem henta vel fyrir börn og unglinga henta ekki í öllum tilvikum fyrir fullorðna. Aukin fullorðinsfræðsla hefur þó enn frekar ýtt undir endurmat á viðhorfum til fræðslu og námsmanna. Hefðbundinn skóli var gjarnan stofnanamiðaður og viðhorf til nemenda gjarnan þannig að þeir máttu koma ef þeir vildu og ef þeir voru tilbúnir að læra það sem fyrir þá var lagt, á þeim hraða sem þeim var sagt og með þeim aðferðum sem kennarinn eða skólinn ákváðu. Í fullorðinsfræðslunni er litið á nemandann sem viðskiptavin, sem eigi sjálfur að ráða því hvað hann vill læra og með hvaða aðferðum. Fullorðinsfræðslan er nemendamiðuð. Það er gengið út frá því að nemendur hafi margs konar reynslu og hæfileika. Reynt er að virkja alla skynjun til náms; svo sem rökhyggju, tilfinningar og hreyfingu. Þess vegna er lagt upp úr að fólki líði vel þar sem það stundar námið; að það sé öruggt með sig og að námið sé skemmtilegt. Námið á að hafa gildi fyrir fólk. Það er ekki nóg að segja fullorðnu fólki að það sjái gildi þess síðar, eins og stundum var sagt við börn og unglinga.

Viðhorf fullorðinsfræðslunni hefur smán saman smitað yfir á önnur skólastig. Engu að síður er mjög mikilvægt að ræða þessi mál við alla sem koma að kennslu fullorðinna. Það gildir líka um þá sem eru vanir kennarar af hvaða skólastigi sem það er. Hvatinn til símenntunar er eitt af lykilatriðum í dag. Það á auðvitað ekki síst við þá sem vinna við símenntun.

Námskeiðið var vel sótt. Á Ísafirði voru 14 þátttakendur og 7 á Hólmavík.

image

image

image

image
Deila