Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Svæðisleiðsögunám á Vestfjörðum

Í janúar 2014 hefst hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða svæðisleiðsögunám á Vestfjörðum í samvinnu við Leiðsöguskólann í Kópavogi sem einnig fer með faglega ábyrgð á náminu. Þetta er í fjórða sinn sem boðið er upp á svæðisleiðsögunám á Vestfjörðum, fjölmennir hópar hafa útskrifast og margir svæðisleiðsögumenn starfa við ferðaþjónustu í dag. Námið er matshæft inn í Leiðsöguskólann í Kópavogi.

Svæðisleiðsögunámið miðar að því að þjálfa færni og hæfni nemenda til þess að standast kröfur ferðaþjónustunnar hverju sinni um áreiðanleika og fagleg vinnubrögð. Þetta nám veitir nemendum sérmenntun á sviði leiðsagnar um Vestfirði.

Nám í svæðisleiðsögn er víðfermt og fjölbreytt. Fjallað er um jarðfræði Íslands, sögu og menningu, gróður, dýralíf, atvinnuvegi, íslenskt samfélag, bókmenntir og listir. Nemendur eru fræddir um helstu ferðamannastaði á Vestfjörðum, ferðamannaleiðir, náttúruvernd, umhverfismál og leiðsögutækni. Fyrirlesarar og kennarar eru allir sérfróðir um einstaka málaflokka.

Námið er 22 einingar og skiptist niður á þrjár annir, vorönn 2014, haustönn 2014 og vorönn 2015. Um er að ræða fjarnám og staðnám í helgarlotum. Áætlað er að kennsla hefjist í janúar 2014 og ljúki í apríl 2015. Gert er ráð fyrir 5-6 staðlotum um helgar, á tímabilinu, víðsvegar um Vestfirði auk prófalotu í lokin. Fjarnámshlutinn verður í boði í fjarfundi á starfssvæði Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Námið fer fram á íslensku fyrir utan að nemendur geta valið ensku (eða annað tungumál ef næg þátttaka fæst) og fá þá þjálfun í leiðsögn á því máli.

Umsækjendur þurfa að vera orðnir 21 árs við upphaf námsins. Þeir skulu hafa stúdentspróf eða sambærilegt nám, ásamt því að hafa gott vald á einu erlendu tungumáli og íslensku.

Umsóknir fyrir svæðisleiðsögunám þurfa að berast Fræðslumiðstöð fyrir 15. nóvember 2013.

Vakin er sérstök athygli á því að þeir sem áður hafa lokið hluta af Svæðisleiðsögunámi geta setið staka áfanga og lokið náminu. Starfandi leiðsögumönnum sem hafa hug á endurmenntun býðst einnig að sitja staka áfanga.

Svæðisleiðsögunámið kostar 90 þúsund á önn. Kostnaður vegna vettvangsferða í staðlotum er innifalinn en nemendur greiða sjálfir ferðir, gistingu og mat.

Kynningarfundur verður haldinn í desember en áhugasamir eru hvattir til að skrá sig sem fyrst á vef Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, þar er einnig að finna ýtarlegri upplýsingar.

Umsjón með náminu hefur Sólveig Bessa Magnúsdóttir verkefnastjóri hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða og svæðisleiðsögumaður.

image
Deila