Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Sykurmassi, ítalska, bakskóli, kryddjurtir ... fjölbreytt úrval námskeiða í mars

Fræðslumiðstöðin hefur sent út dreifibréf í öll hús á norðanverðum Vestfjörðum til þess að auglýsa námskeiðin sem haldin verða í mars. Þar kennir ýmissa grasa og ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Fyrirhuguð eru þrjú tungumálanámskeið fyrir byrjendur eða fólk með lítinn grunn; enska, ítalska og rússneska sem ekki hefur verið í boði áður.

Boðið er upp á almenn tölvunámskeið bæði á Ísafirði og Flateyri og verða þau kennd á dagtíma en ekki kvöldin eins og venjan er.

Af tómstundanámskeiðum þá verður nýtt námskeið um gerð og meðhöndlun sykurmassa, skrautskrift sem alltaf nýtur vinsælda, arfur kynlóðanna sem þróað var á síðasta ári og tókst mjög vel og loks námskeið um mat og kryddjurtir sem einnig var haldið í fyrra við góðan orðstír.

Nokkur námskeið sem flokkast sem endurmenntun eða sjálfsrækt verða í boði. Í samstarfi við Rauða krossinn verður boðið upp á námskeið í almennri skyndihjálp, nokkuð sem allir þurfa að læra og rifja upp reglulega. Í samstarfi við Sjúkraþjálfun Vestfjarða verður boðið upp á bakskóla, námskeið sem bæði hentar þeim sem eiga við bakvandamál að stríða en ekki síður þeim sem vilja stunda fyrirbyggjandi starf. Þá verður boðið upp á stutt námskeið um samskiptafærni þar sem áherslan er á samtalið. Endurmenntun Háskóla Íslands býður svo upp á námskeið um stjórnun breytinga þar sem fjallað verður um hlutverk stjórnenda og þátt starfsmanna í breytingarferli. Það námskeið er kennt í gegnum fjarfundabúnað.

Síðast en ekki síst má nefna fimmta fyrirlesturinn í fyrirlestraröðinni um menningararfinn á Vestfjörðum. Þar mun Jón Jónsson menningarfulltrúi Vestfjarða fjalla um hvernig þjóðmenning og saga hefur með fjölbreyttum hætti verið nýtt við atvinnusköpun á Vestfjörðum.

image

Frá ítölskukennslu vorið 2010.
Deila