Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Tækifæri til að læra norsku

4. mars 2013
Síðasta vetur bauð Fræðslumiðstöð Vestfjarða í fyrsta skipti upp á norskunámskeið en slík námskeið hafa notið mikilla vinsælda víða á landinu síðustu misseri. Ræður þar líklega mestu að margir Íslendingar hafa flust til Noregs á undanförnum árum og sumir þeirra viljað bæta undirstöðu sína á málinu áður en lagt var af stað. Svo var einnig um einhverja þeirra sem sóttu námskeið hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða, en einnig lágu aðrar ástæður að baki, t.d. að fólk á ættingja og vini í Noregi sem það vill gjarnan geta nálgast á þeirra tungumáli.

Fræðslumiðstöðin hefur nú auglýst annað námskeið í norsku og stefna að því að byrja mánudaginn 11. mars n.k. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á talmál og tjáningu og farið í undirstöðuatriði málfræði og orðaforða. Leiðbeint verður um val á efni til lestrar hvort sem er bækur eða á vefsíður. Einnig verður fjallað um norskt samfélag, menningu, siði og venjur.

Námið verður sniðið að allra þörfum eins og kostur er og hentar jafnt byrjendum sem lengra komnum.

Kennt verður tvo daga í viku, mánudaga og fimmtudaga kl. 17:00-19:00, 8 skipti alls.

Kennari á námskeiðinu er eins og áður Elísabet Gunnarsdóttir.

Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig sem fyrst.
image
Deila