Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Umhverfi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða - grein í Fréttablaði VerkVest

Í nýjasta Fréttablaði Verkalýðsfélags Vestfirðinga er grein eftir Elfu Hermannsdóttur forstöðumann Fræðslumiðtöðvarinnar þar sem hún fjallar um umhverfi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, hvernig verkalýðshreyfingin getur stutt við starf miðstöðvarinnar og stuðlað að frekari sí- og endurmenntun á Vestfjörðum. Þetta hafði hún um málið að segja:

Nýverið tók ég við starfi forstöðumanns Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og er full tilhlökkunar að taka þátt í því góða starfi sem er unnið hjá miðstöðinni. Eftir þessa fyrstu mánuði í starfi er ýmislegt sem ég sé að mætti bæta í því kerfi sem Fræðslumiðstöðinni er gert að starfa innan. Það sem hér kemur á eftir eru hugleiðingar mínar um umhverfi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og hvernig verkalýðshreyfingin getur stutt við starf okkar og stuðlað að frekari sí- og endurmenntun á Vestfjörðum.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða hefur verið leiðandi fullorðinsfræðsluaðili á Vestfjörðum um árabil. Við þjónustum alla Vestfirði og erum með starfsstöðvar á Ísafirði, Hólmavík og Patreksfirði. Fjárframlög til miðstöðvarinnar gera hins vegar ekki ráð fyrir fleiri en einni starfsstöð og hefur miðstöðinni reynst erfitt að halda starfseminni úti á öllum stöðum. Nú hefur ekki verið starfsmaður á Hólmavík í einhvern tíma og því er verið að leita í alla vasa til að geta boðið íbúum á Ströndum og Reykhólum upp á góða þjónustu.

Eins og Vestfirðingar þekkja best sjálfir þá eru byggðir dreifðar, fámennar og töluverðar fjarlægðir eru á milli staða. Samt búum við hjá Fræðslumiðstöðinni við sömu kjör og aðrar símenntunarmiðstöðvar þar sem byggð er þéttari og fleira fólk býr. Til þess að reka námsleiðir eins og Skrifstofuskólann, Landnemaskólann og Grunnnámskeið fyrir fiskvinnslufólk, nám sem margir hafa tekið, þurfa að lágmarki 10 þátttakendur að útskrifast svo Fræðslumiðstöðin fái fulla greiðslu fyrir námið úr Fræðslusjóði (Fræðslusjóður er sjóður sem á að stuðla að því að til séu viðeigandi námstækifæri fyrir einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki).  Ekki er heimilt að halda námsleið úti ef fjöldi þátttakenda fer niður fyrir 6 manns og fær Fræðslumiðstöð skerðingu á framlaginu ef að þátttakendur eru á bilinu 6-10. Þetta finnst mér sérstakt í ljósi fámennis okkar, að hægt sé að gera sömu kröfur á miðstöð í fámenninu hér á Vestfjörðum og gerðar eru til miðstöðva t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Það segir sig sjálft að á minni stöðum er erfiðara að uppfylla þessi skilyrði um lágmarks þátttöku sem dregur verulega úr möguleikum á að bjóða upp á nám.  

Annað sem mér finnst sérstakt í rekstri Fræðslumiðstöðvarinnar er að við fáum árlega 20 milljónir frá Menntamálaráðuneytinu til að þjónusta alla Vestfirði. Með þessari upphæð nær Fræðslumiðstöðin aðeins að halda úti algjörri lágmarksþjónustu á einni starfsstöð en ekkert tillit er tekið til fjarlægða á milli staða eða erfiðra samgangna sem krefjast þess í raun að vera með starfsstöðvar víðar um fjórðunginn eigi miðstöðin að standa undir því hlutverki að veita þjónustu á öllum svæðum.

Þá vakti athygli mína hvernig staðið er að dreifingu fjármagns úr starfsmenntasjóðum sem eru í eigu verkalýðsfélga, samtaka atvinnulífsins og iðnaðarins. 0,3% af launum okkar allra fara í starfsmenntasjóði s.s. eins og Ríkismennt og Landsmennt sem og fleiri sjóði. Þetta eru sjóðir sem koma í gegnum kjarasamninga og eru fræðslusjóðir samtaka atvinnulífsins og verkalýðsfélaga. Ætla má að kjarasamningsbundin iðgjöld atvinnulífs hafi verið 2,6 milljarðar árið 2015.

Einhverjir sjóðir hafa gert samninga við utanaðkomnadi fræðsluaðila til að sinna fræðslumálum fyrir sig á landsvísu. Það sem mér finnst sérstakt er að þeir gera samninga við fræðsluaðila sem eru með höfuðstöðvar sínar í Reykjavík sem ekki eru í nánum tengslum við launafólk á landsbyggðinni. Þeir telja sig vera að sinna landsbyggðinni með því að bjóða fjarkennd námskeiðin í gegnum tölvu, en ef það er lausnin þá spyr ég af hverju þarf að hafa kennslustofu eða sal í Reykjavík ef allir geta horft í gegnum tölvu? Af hverju gera þessir sjóðir ekki með samning við þær fræðslu- og símenntunnarstöðvar sem eru starfandi á landsbyggðinni þannig að hægt sé að bjóða námskeið kennd á staðnum á sömu kjörum og býðst í Reykjavík? Oft eru þetta frí eða mikið niðurgreidd námskeið. Það væri mikil bót og bætt þjónusta ef félagar í stéttarfélögum hér á svæðinu gætu fengið frí námskeið og sloppið við að sækja um endurgreiðslu þátttökugjalda. Það væri líka hagur samfélagsins ef rekstur slíkra námskeiða færi í gegnum Fræðslumiðstöð Vestfjarða í stað þess að öll umsýsla fari fram í Reykjavík. 

Við hjá Fræðslumiðstöðinnið prófuðum að halda námskeið frá Fræðslusetrinu Starfsmennt sem er með samning við Ríkismennt og Landsmennt um námskeiðahald fyrir aðila þessara sjóða. Frumkvæðið kom alfarið frá Fræðslumiðstöðinni þar sem við töldum mikilvægt að geta boðið félagsmönnum VerkVest og FosVest upp á frítt námskeið. Útkoman var sú að þetta varð eitt fjölmennasta námskeið vetrarins með 27 þátttakendur, en reynsla Starfsmenntar er sú að vanalega er mjög erfitt er að fylla námskeiðin úti á landi.  Fyrir utan klapp á bakið fyrir gott framtak við að koma námskeiðinu á, skilaði þetta Fræðslumiðstöðinni þó ekki öðrum tekjum en stofuleigu, öll greiðsla fyrir þátttakendur og umsýslu fór til Starfsmenntar (frá sjóðunum Ríkismennt og Landsmennt).

Þetta sýndi svart á hvítu hvað nálægðin við einstaklingin skiptir máli. Við þekkjum okkar svæði vel. Við eigum auðvelt með að ná til einstaklinga og fyrirtækja og mæta þörfum þeirra. Hins vegar tel ég að þátttaka hér á Vestfjörðum væri mun meiri og auðveldara væri að halda námskeið í smærri byggðum ef við þyrftum ekki að rukka einstaklinga fyrir námskeiðsgjöld beint, heldur gætum rukkað starfsmenntasjóðina eins og þeir aðilar geta gert sem eru með samninga við sjóðina.

Annað sem ég vil vekja athygli á hér er að þeir sem eru iðnmenntaðir greiða í sjóð Iðunnar 0,5 – 1% launa sinna. Þeir geta sótt endurmenntun sem Iðan heldur en eingöngu tengt starfinu sínu. Þeir geta ekki fengið endurgreidd önnur námskeið, þ.e. starfsmenntasjóðurinn þeirra greiðir eingöngu fyrir námskeið sem Iðan heldur. Ef þá langaði að sækja t.d. námskeið í fundarsköpum yrðu þeir að sækja það til síns fagstéttarfélags sem hefur þá búið til sjóði úr félagsgjöldum. Þá verður endurgreiðslan mun minni og sjaldgæft að námskeiðið greiðist að fullu þar sem upphæðin sem fagstéttarfélögin sjálf geta greitt út er lítil þar sem félagsgjöldin fara að sjálfsögðu í að reka aðra starfsemi stéttarfélagsins.

Ég vil benda félagsmönnum VerkVest á að fyrirtæki, hversu stór eða smá sem þau eru, geta óskað eftir Fræðslustjóra að láni og fengið fræðslugreiningu á þörfum fræðslu innan fyrirtæksins að fullu greidda. Fræðslumiðstöðin getur svo fylgt eftir með fræðsluáætlun og fyrirtækin sótt í starfsmenntasjóði fyrir kostnaði námskeiðanna.

Deila