Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Útskrifaðir tveir hópar

Föstudaginn 28. maí luku tveir hópar námi hjá Fræðslumiðstöðinni úr námsskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Báðir hóparnir luku 60 kennslustunda námi í Færni í ferðaþjónustu 1 og að auki lauk annar hópurinn, sem skipaður var ungu fólki, námi í Aftur í nám og Menntasmiðju.

Að loknu námi var farið í útskriftarferð í Vigur. Farið var í göngu um eyjuna þar sem ganga mátti, en mikið æðarvarp er þar núna. Að því loknu fékk fólk að gæða sér á góðum veitingum frá vertunum í Vigur. Áður en heim var haldið var smá útskriftarathöfn og afhenti Smári öllum útskriftarskírteinin sín.

Færni í ferðaþjónustu 1
Annarsvegar luku 14 manns námi í Færni í ferðaþjónustu 1, sem var 60 kennslustunda nám þar sem farið var í hvernig á að efla persónulega, faglega og almenna færni þess til að veita gæðaþjónustu og takast á við fjölbreytt úrlausnarefni í ferðaþjónustu. Þátttakendur voru flestir frá Ísafjarðarsvæðinu, en einnig frá Hólmavík.
Námið var bæði bóklegt og verklegt. Bóklegi hlutinn fór fram í Fræðslumiðstöðinni, en verklegi hlutinn á Hótel Núpi þar sem þátttakendur fengu að láta hendur standa fram úr ermum og taka þátt í hverju því sem snýr að rekstri hótels.
Er þetta í fyrsta í skipti sem þessi námskrá er kennd og er ánægjulegt hversu vel ferðaþjónar hafa tekið í hana.

Unga fólkið
Hins vegar var hópur af ungu fólki sem lauk allt að þrem námshlutum þar af tveim frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Færni í ferðaþjónustu 1 og Aftur í nám, ásamt Menntasmiðju. Luku þau allt að 205 kennslustundum.
Sama fyrirkomulag var haft á ferðaþjónustunáminu og í hinum hópnum. Þ.e. bæði var kennt á Núpi og í Fræðslumiðstöðinni. Aftur í nám er 95 kennslustundir og tekur á lesblindu. Hluti af því er Ron Davis leiðrétting þar sem unnið er með einstaklinginn og síðan tekur við hópkennsla. Menntasmiðjan var verkleg og fór að mestu leyti fram í Menntaskólanum á Ísafirði. Þar fékk unga fólkið að kynnast m.a. förðun og hárgreiðslu, vélstjórnarnámi ofl.
Í blíðunni um borð í Blika
Snyrtimennskan er til fyrirmyndar í Vigur
Deila