Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Útskrift úr Fagnámskeiði fyrir starfsfólk leikskóla

25. mars 2013

Sunnudaginn 17. mars útskrifuðust níu nemendur Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða úr Fagnámskeiði fyrir starfsmenn leikskóla, en alls luku 29 konur víðs vegar um landið náminu. Námið var samvinnuverkefni fjögurra fræðslu- og símenntunarmiðstöðva.

Að frumkvæði Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum sóttu fjórar fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar um styrk til Þróunarsjóðs framhaldsfræðslunnar til að koma á fót fjarkennslu á fagnámskeiði leikskólastarfsmanna. Ekki hafði tekist að ná nægilega stórum hópum í hverjum landshluta fyrir sig og þótti sýnt að með fjarkennslu gætu miðstöðvarnar boðið uppá námið fyrir markhópinn. Með þessu væri m.a. leitast við að koma til móts við námsmenn í dreifðum byggðum.

Vorið 2012 veitti Þróunarsjóður Framhaldsfræðslu Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS), Fræðslumiðstöð Vestfjarða (FRMST), Fræðsluneti Suðurlands (FnS) og Farskólanum ? miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra styrk til fjarkennslu Fagnámskeiðs leikskólastarfsmanna.

Öll kennsla fór fram í gegnum fjarfundabúnað og skiptu stöðvarnar með sér útsendingu. Móttökustaðir (námsver) voru alls tíu: Reykjanesbær, Ísafjörður, Blönduós, Sauðárkrókur, Selfoss, Hvolsvöllur, Flúðir, Reykhólar, Hólmavík og Patreksfjörður. Fjarfundir (útsendingar) voru teknir upp á eMission upptökuhugbúnað.

Kennslukerfið Moodle var notað til þess að halda utan um námið, samskipti kennara og nemenda og verkefnaskil. Allar upptökur og kennsluefni var aðgengilegt á Moodle. Þar með gátu námsmenn stundað námið heima hjá sér í stað þess að mæta í námsver. Námsþátturinn Listastarf með börnum var kenndur í staðlotu í lok náms en þá fór einnig fram útskrift. Í kennslukerfinu gátu leiðbeinendur fylgst með virkni námsmanna svo sem áhorfi á upptökur, flettingar á námsefni og verkefnaskil.

Námsskráin er 210 kennslustundir og námsþættir 22.

Myndirnar hér fyrir neðan eru teknar í staðlotu að Laugum í Sælingsdal helgina 15. - 17. mars þar sem fjallað var um listastarf með börnum.

image

image

image
Hér allur hópurinn sem mætti á staðlotuna í lokin, saman kominn.
Deila