Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Vefnámskeið í Zoom

Nokkrir þátttakendur á vefnámskeiðinu Forræktun mat- og kryddjurta
Nokkrir þátttakendur á vefnámskeiðinu Forræktun mat- og kryddjurta

Fræðslumiðstöð Vestfjarða býður upp á nokkur stutt vefnámskeið/fyrirlestra fyrir íbúa á Vestfjörðum í samstarfi við Vestfjarðastofu, Sameyki og starfsmenntasjóði sem eiga aðild að Landsmennt, Ríkismennt og Sveitamennt. Námskeiðin eru kennd á vefnum í fjarfunda forritinu Zoom.

Auðvelt er að sækja Zoom forritið fyrir tölvu, spjaldtölvu eða síma og það er frekar einfalt í notkun, en það með þetta eins og annað, æfingin skapar meistarann. Hægt er að fara inn á zoom.us og sækja forritið en einnig er hægt að fara í App store og Google Play til að sækja app fyrir Zoom.

Vefnámskeiðin eru opin öllum íbúum á Vestfjörðum og þátttakendum að kostnaðarlausu. Námskeiðin eru auglýst á heimasíðu miðstöðvarinnar frmst.is og á Facebook. Skráning er á heimasíðunni eða í síma 456-5025 en jafnan eru 15-20 pláss á hverju námskeiði. Fræðslumiðstöð sendir svo skráðum þátttakendum Zoom tengil inn á námskeiðin. Auðvitað er hægt að fá leiðbeiningar og aðstoð við að tengjast hjá starfsfólki miðstöðvarinnar.

Tvö námskeið eru nú þegar búin, Forræktun mat- og kryddjurta með Auði Ottesen og Matseðill vikunnar, undirbúningur og innkaup með Salóme Ingólfsdóttur. Tvö námskeið eru komin á dagskrá eftir páska, það eru námskeiðin Á eigin skinni með Sölva Tryggvasyni og Þarmaflóran með Önnu Ottesen. Fleiri vefnámskeið eru í undirbúningi og rétt er að minna á að við þiggjum ábendingar og hugmyndir að áhugaverðum námskeiðum. Margir starfsmenntasjóðir niðurgreiða námskeið fyrir sína félagsmenn en greiðsluþátttaka er þó mismunandi.

Starfsfólk Fræðslumiðstöðvar þakkar Vestfjarðastofu og starfsmenntasjóðunum fyrir samstarfið um námskeiðin og vonar þátttakendur hafi gagn og gaman af.

Gleðilega páska
Sædís María Jónatansdóttir og starfsfólk Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða

 

Deila