Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Vestfirska vorið - málþing á Flateyri 5.-6. maí 2017

Fræðslumiðstöðin vill vekja athygli á málþinginu Vestfirska vorið sem haldið verður á Flateyri dagana 5. – 6. maí 2017, að Hafnarbakka 8, kaffistofu gamla hraðfrystihússins sem nú hýsir Ísfell hf. Málþingið er skipulagt af Perlum fjarðarins, Flateyri, félaginu Hús og fólk, Flateyri og fleiri heimamönnum í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða og Fræðslumiðstöð Vestfjarða.

Markmið málþingsins er vekja athygli á vestfirsku samfélagi og málefnum dreifðra byggða á Íslandi. Heimamenn, fræðimenn og gestir munu skiptast á skoðunum í von um að umræða er tæki mið af reynsluheimi íbúa dreifðra byggða, þekkingu og sýn fræðimanna muni efla skilning á stöðu mála, viðfangsefnum og hugsanlegum úrræðum. Spurt verður hvort hægt sé að snúa núverandi byggðaþróun við þar sem ljóst sé að ef fram fer sem horfir muni margar sjávarbyggðir á Íslandi ekki ná vopnum sínum og jafnvel leggjast af.

Þrír fræðimenn munu flytja erindi á málþinginu en allir hafa þeir fjallað um byggðaþróun, hver frá sínum fræðasviði. Þeir eru dr. Guðmundur Hálfdánarson, sagnfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, dr. Kristinn Hermannsson, hagfræðingur og lektor við Háskólann í Glasgow og dr. Þóroddur Bjarnason, félagsfræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri.

Heimamenn á Flateyri munu einnig fjalla um stöðu mála út frá reynslu og rannsóknum og eru það þau Jóhanna G. Kristjánsdóttir, menntunarfræðingur, Kristján Torfi Einarsson, sjómaður og útgerðarmaður og Sæbjörg Freyja Gísladóttir, þjóðfræðingur.

Öllum áhugasömum um efni málþingsins er velkomið að hlýða á erindin meðan húsrúm leyfir en þeir eru beðnir um að skrá sig til að geta áætlað fjölda þátttakenda. Nánari upplýsingar og skráning hjá Jóhönnu Kristjánsdóttur í síma 4567626 / 8642943 eða með tölvupósti á netfangið: johanna@snerpa.is  

Deila