Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Vinnufundur um EQM gæðaviðmið

Á miðvikudaginn var starfsfólk Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða samankomið á vinnufundi í Þekkingarsetrinu Skor á Patreksfirði. Á fundinum var unnið að gæðaviðmiðum sem aðilar í fullorðinsfræðslu þurfa að uppfylla til að öðlast evrópska gæðamerkið EQM. EQM er gæðamerki sem þróað var sameiginlega af aðilum frá átta Evrópulöndum. Það er afurð Evrópuverkefnsins RECALL Recognition af Quality in Lifelong Learning sem unnið var með styrk frá Leonardo da Vinci, menntaáætlun ESB.

Fáein misseri eru síðan farið var af stað í slíka vinnu hér á landi og nýtur Fræðslumiðstöðin handleiðslu Þekkingarnets Þingeyinga sem er langt komið með sína vinnu. Í febrúar var vinnufundur á Ísafirði þar sem Helena Eydís Ingólfsdóttir sviðstjóri hjá Þekkingarnetinu fór yfir gæðaviðmið EQM og starfsmenn Fræðslumiðstöðvarinnar hófu vinnu við svokallaða gæðavísa í framahaldi af því. Í byrjun maí var síðan vinnufundur þar sem samræming gæðavísa hófst. Á vinnufundinum á Patreksfirði var svo vinna starfsmanna og einstakra hópa innan starfsmannahópsins samræmd, auk þess sem fjallað var um ýmis gæðatengd mál. Áætlað er að vinnunni við gæðaviðmiðin ljúki í árslok 2011.

Næsta skref í vinnunni er að útbúa gæðahandbók fyrir Fræðslumiðstöðina en síðan má búast við að gerð verði gæðahandbók fyrir starfsmenn og kennara sem starfa sem verktakar hjá Fræðslumiðstöðinni. Ævinlega spretta margvíslegar umræður af því þegar starfsmenn sem alla jafna starfa vítt og breytt um svæðið hittast á einum stað og á Patreksfirði gafst einnig tækifæri til hugarflugs um námsvísi næsta vetrar. Allar hugmyndir að námskeiðum eru vel þegnar og ávallt teknar til skoðunar.
image
Deila