Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Kynning á fræðslusjóðum - súpufundur

Næstukomandi fimmtudag, þann 26. janúar mun Kristín Njálsdóttir, framkvæmdarstjóri Landsmenntar, Ríkismenntar, Sveitamenntar og Sjómenntar, kynna starfsmenntasjóðina og styrkjamöguleika fyrirtækja og stofnana varðandi fræðslumál. Í sjóðina er greitt af m.a. félagsfólki Verkalýðsfélags Vestfirðinga og Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur. Kynningin mun fara fram í Bryggjusal Edinborgarhússins og boðið verður upp á súpu og brauð. Fundurinn hefst kl. 12 og gengið er út frá því að honum ljúki kl. 13.

 

Hér er gott tækifæri fyrir þá sem starfa við mannauðsmál s.s. mannauðsstjóra og stjórnendur. Einstaklingar eru einnig velkomnir.

 

Fræðslumiðstöð Vestfjarða starfar í góðu samstarfi við sjóðina sem styðja við verkefni á borð við fræðslugreiningar, náms- og starfsráðgjöf og sí- og endurmenntun.

 

Áhugasamir eru hvattir til að mæta og gott væri ef fólk skráði sig hér: https://fb.me/e/2wSOhi1QS

 

 

Haustfundur símenntunarstöðva á Akureyri

Tæplega hundrað manns sóttu fund verkefnastjóra og náms- og starfsráðgjafa símenntunarmiðstöðva sem fór fram á Akureyri 27. og 28. september hjá SÍMEY.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og SÍMENNT, samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, stóðu sameiginlega að fundinum sem bæði var staðbundinn og fór fram í gegnum fjarfundarbúnað. Fræðslumiðstöð Vestfjarða átti þrjá fulltrúa á fundinum en gestir fundarins voru frá öllum þeim ellefu símenntunarmiðstöðvum sem tilheyra SÍMENNT, sem og frá Starfsmennt, Iðunni og Rafmennt ásamt Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Í upphafi fundarins tilkynnti formaður SÍMENNTAR, Sólveig Hildur Björnsdóttir framkvæmdastjóri Mímis, um nafnabreytingu á samtökum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, áður KVASIR, sem samþykkt var samhljóða á nýafstöðnum aðalfundi samtakanna. Leitað var til fjölmargra um álit og tillögur að nýju nafni, og var niðurstaðan um val á nafninu SÍMENNT afgerandi.

Leiðarstef fundarins var samtal og samvinna innbyrðis enda er mikil gróska og nýsköpun hjá miðstöðvum í framhaldsfræðslunni. Tólf erindi fóru fram í fjórum vinnustofum þar á meðal erindi um fjölbreyttar kennsluaðferðir í framhaldsfræðslu og verkfæri við miðlun náms, áskoranir og tækifæri í markaðs- og kynningarmálum, samstarf miðstöðva við vinnustaði um framhaldsfræðslu og þróun rafrænnar ráðgjafar. Þá voru einnig erindi um starfstengda íslenskukennslu, samstarf um virkniúrræði, þarfagreiningar fyrir fræðslu á vinnustöðum, nám fatlaðs fólks, sem og fjölmenningu og þjónustu við flóttamenn. Auk þessa fóru fram kynningar á fagbréfi atvinnulífsins og tengingu jákvæðrar sálfræði við framhaldsfræðslu.

 

Eldri færslur