Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Námsleiðir haustsins hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða

Nú liggur nokkuð fyrir hvaða námsleiðir verða í boði hjá Fræðslumiðstöðinni í haust og um að gera fyrir fólk að kynna sér hvort þar leynast ekki tækifæri.  

Ein af megin stoðunum í starfsemi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða eru námsleiðir sem kenndar eru samkvæmt námskrám frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Námsleiðirnar eru stundum kallaðar annað tækifæri til náms en þær eru ætlaðar fullorðnu fólki á vinnumarkaði sem ekki hefur lokið framhaldsskólanámi. Í gegnum tíðina hafa margir hafa nýtt sér þessar námsleiðir til þess að byggja sig upp, eflast á vinnumarkaði eða komast aftur af stað í námi.

Flestar námsleiðir eru fjarkenndar og því aðgengilegar fólki hvar sem er.

Nú í haust stendur til að fara af stað með nokkrar námsleiðir ef þátttaka fæst.

Vinnuumhverfi samtímans – tæknilæsi og tölvufærni. Náminu er ætlað að efla hæfni einstaklinga í tæknilæsi og tölvufærni og gera þeim kleift að halda í við þær hröðu breytingar sem átt hafa sér stað í tæknilausnum í daglegu lífi sem og á vinnumarkaðnum. 

Sölu-, markaðs og rekstrarnám – nám fyrir frumkvöðla. Sölu-, markaðs- og rekstrarnám er sérstaklega hagnýtt og hnitmiðað nám fyrir þá sem vilja styrkja eigin rekstur eða þá sem hafa í hyggju að stofna eigið fyrirtæki.

Móttaka og miðlun. Markmið með náminu er að auka hæfni námsmanna við að taka á móti viðskiptavinum og að veita þjónustu og upplýsingar í samræmi við þjónustustefnu fyrirtækja.

Uppleið – nám byggt á hugrænni atferlismeðferð. Markmið námsins er að auka færni námsmanna til að takast á við hamlandi líðan með því að nýta sér aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) í daglegu lífi og breyta þannig hugsun, tilfinningum og hegðun og í kjölfarið viðhalda betri líðan.

Stökkpallur. Í náminu er lögð áhersla á að byggja upp samskiptafærni, efla sjálfstraust og þjálfa námsmenn til atvinnuþátttöku í mismunandi starfsumhverfi og til áframhaldandi náms.

Fleiri námsleiðir gætu eftir að bætast við. Starfsfólk Fræðslumiðstöðvarinnar er boðið og búið að veita nánari upplýsingar – ekki hika við að hafa samband.

Svæðisleiðsögunám í haust

Nú í haust mun Fræðslumiðstöð Vestfjarða, í samvinnu við Leiðsöguskólann í Kópavogi, bjóða upp á nám í svæðisleiðsögn fyrir Vestfirði. Námið hefst í október og spannar alls þrjár annir, en einnig er mögulegt að taka staka áfanga hafi fólk t.d. áður lokið hluta af náminu eða ef starfandi leiðsögumenn vilja taka það sem endurmenntun. 

Ferðaþjónusta á Vestfjörðum er í örum vexti og tækifærunum til að hasla sér völl í greininni fer stöðugt fjölgandi. Svæðisleiðsögunámið er gott veganesti fyrir alla sem þar vilja starfa og er alls ekki bundið eingöngu við leiðsögufólk. Námið nýtist nefnilega öllum sem á einhvern hátt koma að þjónustu og aðstoð við ferðamenn. Það veitir þátttakendum tækifæri til kynnast sögu, náttúru og mannlífi Vestfjarða betur og um leið að auka færni sína og hæfni til að standast vaxandi kröfur um færni og fagmennsku í ferðaþjónustu. 

Nám í svæðisleiðsögn er víðfeðmt, fjölbreytt og umfram allt skemmtilegt. Fjallað er um jarðfræði, sögu og menningu, gróður, dýralíf, atvinnuvegi, samfélag, bókmenntir og listir. Nemendur eru fræddir um áhugaverða staði á Vestfjörðum, náttúruvernd, umhverfismál og leiðsögutækni. Fyrirlesarar og kennarar eru allir sérfróðir um einstaka málaflokka. 

Námið er 22 einingar og skiptist niður á þrjár annir, haustönn 2023 og vorönn og haustönn 2024. Um er að ræða fjarnám og staðnám í helgarlotum. Gert er ráð fyrir 4-5 staðlotum á tímabilinu, víðsvegar um Vestfirði auk prófalotu í lokin. Námið fer fram á íslensku fyrir utan að nemendur geta valið að fá þjálfun í leiðsögn á ensku (eða öðru tungumál ef næg þátttaka fæst). 

Umsækjendur þurfa að vera orðnir 21 árs við upphaf námsins, hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegt námi, ásamt því að hafa gott vald íslensku og einu erlendu tungumáli. 

Svæðisleiðsögunámið kostar 365.000 kr. og er mögulegt að skipta greiðslum á annir. Þátttakendur eru hvattir til að kanna styrki hjá stéttarfélögum. Kostnaður vegna vettvangsferða í staðlotum er innifalinn í verði en nemendur greiða sjálfir ferðir, gistingu og mat.  

Viðtökur við svæðisleiðsögunáminu eru góðar en þó eru enn nokkur sæti laus í hópnum. Þau sem eru áhugasöm eru því hvött til að skrá sig sem fyrst. 

Umsjón með náminu hefur Sólveig Bessa Magnúsdóttir verkefnastjóri hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða og svæðisleiðsögumaður en hún veitir einnig frekari upplýsingar. Nánar um námið hér á vef miðstöðvarinnar.

 

Eldri færslur