Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Íslenskunámskeiðin að fara af stað

Nokkur íslenskunámskeið eru komin á dagskrá hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða, bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Eins og stendur er dagskráin eftirfarandi:

8. janúar – 7. febrúar: Íslenska 3a - Ísafjörður.  Kennt mánudaga og miðvikudaga kl. 18-20.
8. janúar – 17. mars: Íslenska fyrir fólk af taílenskum uppruna – fjarkennt.
15. janúar – 14. febrúar: Íslenska 2a – Ísafjörður. Kennt mánudaga og miðvikudaga kl. 17:30-19:30.
22. janúar – 24. apríl: Íslenska, framburðarnámskeið – fjarkennt mánudaga og miðvikudaga kl. 12:15-13.
23. janúar – 22. febrúar: Íslenska 1a – Ísafjörður. Kennt þriðjudaga og fimmtudaga kl. 17:30-19:30.

Í lok febrúar hefst almennt íslenskunámskeið á Suðureyri. Á svipuðum tíma verður staðkennt námskeið á Ísafirði fyrir fólk af taílenskum uppruna. Nánari tímasetningar verðar auglýstar þegar nær dregur.

Einnig er fyrirhugað er að halda íslenskunámskeið á fleiri stöðum innan Vestfjarða og verður það auglýst nánar.

Fræðslumiðstöðin hvetur öll sem vilja læra íslensku eða þekkja einhverja sem gætu haft gagn af slíku námskeiði að skoða hvort ekki finnist námskeið sem hentar. Skráning og nánari upplýsingar eru hér á heimasíðunni, í síma 456 5025 eða í gegnum tölvupóst á <a href="mailto:frmst@frmst.is">frmst@frmst.isa>

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu 

  1. nóvember 2023

Á degi íslenskrar tungu er vel við hæfi að vekja athygli á íslenskukennslu fyrir fólk af erlendum uppruna sem hefur verið einn af hornsteinum í starfsemi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða alveg frá upphafi. 

Í yfir 20 ár hefur Fræðslumiðstöðin boðið upp á íslenskunámskeið fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Til að byrja með voru námskeiðin staðkennd en í seinni tíð hefur líka verið boðið upp á fjarnámskeið. Flestir ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hin síðari ár hefur þátttaka á íslenskunámskeiðum hjá Fræðslumiðstöðinni aukist sem er gleðiefni og viðeigandi að fagna á degi íslenskrar tungu. 

Fræðslumiðstöðin hefur í gegnum árin einnig átt gott samstarf við sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir um íslenskukennslu fyrir íbúa og starfsfólk en þar er örugglega sóknarfæri til að gera enn betur. Starfsmenntasjóðir hafa stutt við íslenskunámskeið með endurgreiðslu á námskeiðkostnaði. Auk þess eru námskeiðin niðurgreidd af Rannís. 

Hjá Fræðslumiðstöðinni hefur átt sér stað þörf og mikilvæg þróun varðandi íslenskunámskeiðin og því má þakka framsæknu og skapandi starfsfólki sem óhrætt er að prófa nýjar leiðir. Íslenskukennarar hjá miðstöðinni hafa jafnan unnið gróskumikið starf sem er mikið lán. 

Drifkraftur þróunar er ástríða og hugsjón. Fræðslumiðstöð hefur átt í góðu samstarfi við kennara sem eru framúrskarandi og byggja á þekkingu og reynslu. Aðgengi að íslenskunámskeiðum þarf að vera gott og stöðugt og því hefur verið aukið við fjarnám til að ná til sem flestra. Sem dæmi þá eru fjarkennd námskeið hjá miðstöðinni sem sérstaklega eru sniðin að kennslu íslensku fyrir fólk frá Taílandi og eru þátttakendur víðs vegar af landinu. Þá erum við í góðu samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða í verkefninu Gefum íslensku séns sem nýverið hlaut viðurkenninguna Evrópumerki. Það verkefni bætir við það góða starf sem unnið er á íslenskunámskeiðunum því að til þess að ná tökum á íslensku þarf að nota tungumálið. 

Að læra tungumál getur verið krefjandi viðfangsefni en á sama tíma gefandi. Fræðslumiðstöðin gaf nýverið út Íslensku málfræðihandbókina mína en bókin er verk fyrrum nemanda miðstöðvarinnar, Joönna Majewska. Útgáfan hlaut styrk frá starfsmenntasjóðunum Landsmennt, Ríkismennt og Sveitamennt. Bókin getur stutt við íslenskunám fólks af pólskum uppruna. 

Við getum öll lagt okkar að mörkum sem almannakennarar í íslensku. Leggjum áherslu á að gefa íslensku séns í samfélaginu, fyrir samfélagið. 

Fyrir hönd Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða  

Sædís María Jónatansdóttir  

Eldri færslur