Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Ljósmyndun, norska, þjálfun, fuglar, harmónikka ....

Fræðslumiðstöðin hefur nú gefið út blöðung með námskeiðum sem fyrirhuguð eru í febrúar og byrjun mars. Þar kennir ýmissa grasa eins og endra nær.
Smáskipanámið sívinsæla hefst þriðjudaginn 7. febrúar og er kominn góður hópur á það námskeið. Mögulega má bæta við fleiri þátttakendum ef einhverjir áhugasamir hafa enn ekki skráð sig.

Norskan sem áður hefur verið auglýst byrjar 14. febrúar. Þetta er í fyrsta skipti sem Fræðslumiðstöðin býður upp á slíkt námskeið en eins og flestir vita hefur áhugi á Noregi og því sem norskt er aukist töluvert síðustu mánuði og ár.

Af tungumálum er einnig gert ráð fyrir að hefja enskunámskeið 20. febrúar. Í þetta skipti er áherslan á talmál og er námskeiðið ætlað þeim sem eru með nokkurn grunn í málinu. Þess má geta að þegar er í gangi eitt enskunámskeið hjá Fræðslumiðstöðinni, ætlað fólki með minni grunn í málinu, og er það vel sótt.

Nokkuð er síðan boðið var upp á ljósmyndanámskeið síðast en nú gefst tækifæri til að fá tilsögn í undirstöðuatriðum ljósmyndunar. Fyrirhugað er að það námskeið hefjist 21. febrúar. Sama dag er fyrirhugað að hefja námskeið um bókhald og skjalavörslu, tilvalið námskeið fyrir þá sem koma að rekstri fyrirtækja eða bókhaldi.

Nú verður í fyrsta skipti boðið upp á námskeið í þjálfunarlífeðlisfræði, námskeið fyrir alla þá sem hafa áhuga á íþróttum og líkamsþjálfun og vilja vita meira um áhrif þjálfunar á líkamann. Gert er ráð fyrir að það hefjist 22. febrúar.

Annað nýtt námskeið sem ekki hefur áður verið hjá Fræðslumiðstöðinni er Lestur og greining ársreikninga sem fyrirhugað er í mars. Það er einkum ætlað þeim sem þurfa að rýna í ársreikninga fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga.

Síðan má ekki gleyma námskeiðaröðunum tveimur sem hafa verið í gangi í vetur. Fimmtudaginn 16. febrúar verður fjallað um fuglarannsóknir á Vestfjörðum og er það liður í námskeiðaröðinni um náttúruna. Fimmtudaginn 1. mars er svo Tónlistin frá ýmsum hliðum og verður hinn heillandi heimur harmónikkunnar þá til umfjöllunar.

Þessi og önnur námskeið má finna undir flipanum námskeið hér fyrir ofan.
Deila