Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Útskrift úr Landnemanum

Hluti nemendahópsins ásamt kennurum
Hluti nemendahópsins ásamt kennurum
1 af 2

Í sumar hefur hópur fólks frá Úkraínu sótt nám hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða sem kallast Landneminn. Um er að ræða 40 klukkustunda námskeið í samfélagsfræðum sem ætlað er fullorðnum innflytjendum og flóttafólki á Íslandi. Á námskeiðinu kynntust þátttakendur sögulegum, félagslegum, efnahagslegum, menningarlegum, lagalegum og pólitískum aðstæðum á Íslandi ásamt því að fræðast um eigin réttindi, tækifæri og skyldur í íslensku samfélagi.

Námskeiðið var haldið í samvinnu við Vinnumálastofnun. Kennari var Nina Ivanova og henni til aðstoðar var Barbara Maria Gunnlaugsson verkefnastjóri hjá Fræðslumiðstöðinni. Einnig komu gestafyrirlesarar frá ýmsum stofnunum og félagasamtökum til að kynna starfsemi sína.

Námskeiðinu lauk 4. ágúst. Í tilefni þess gerðu nemendur og kennarar sér dagamun og gæddu sér á bakkelsi að íslenskum og úkraínskum sið.

Fræðslumiðstöðin þakkar þessu góða fólki fyrir samveruna í sumar og óskar því velfarnaðar í framtíðinni.

Útskrift úr smáskipanámi

Mánudaginn 13. júní s.l. útskrifuðust 23 nemendur úr Smáskipanámi skipstjórn

Það er löng hefð fyrir smáskipanámi hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða en því miður lá það niðri í um þrjú ár vegna reglugerðabreytinga og ýmissa hindrana. Um tíma var ekki ljóst hvort hægt væri að halda áfram með námið hér á svæðinu en með þrautseigju og hjálp góðra aðila tókst að útfæra það og fá tilskilin leyfi fyrir kennslunni. Kennslan í náminu var mikið til í höndum Hjalta Más Magnússonar en einnig komu kennarar hjá Tækniskólanum að kennslunni og sáu um staðlotur í hermum í Reykjavík. Aðrir kennarar voru Jóhann Bæring Gunnarsson og Nanna Bára Maríusdóttir. Sólveig Bessa Magnúsdóttir hélt utan um námið fyrir hönd Fræðslumiðstöðvarinnar.

Fræðslumiðstöðin er afar þakklát þeim sem lögðu hönd á plóg til að námið yrði að veruleika enda skiptir miklu að smáskipanám sé í boði á Vestfjörðum þar sem atvinnulíf er svo nátengt sjósókn og sjómennsku.

Fyrirhugað er að bjóða aftur upp á smáskipanám í skipstjórn í haust og þá einnig í vélstjórn en vélstjórnanámið hefur líka legið niðri um tíma.

Eldri færslur