Forsíða
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
frmst@frmst.is
456-5025

Vefnámskeið í Zoom

Nokkrir þátttakendur á vefnámskeiðinu Forræktun mat- og kryddjurta
Nokkrir þátttakendur á vefnámskeiðinu Forræktun mat- og kryddjurta

Fræðslumiðstöð Vestfjarða býður upp á nokkur stutt vefnámskeið/fyrirlestra fyrir íbúa á Vestfjörðum í samstarfi við Vestfjarðastofu, Sameyki og starfsmenntasjóði sem eiga aðild að Landsmennt, Ríkismennt og Sveitamennt. Námskeiðin eru kennd á vefnum í fjarfunda forritinu Zoom.

Auðvelt er að sækja Zoom forritið fyrir tölvu, spjaldtölvu eða síma og það er frekar einfalt í notkun, en það með þetta eins og annað, æfingin skapar meistarann. Hægt er að fara inn á zoom.us og sækja forritið en einnig er hægt að fara í App store og Google Play til að sækja app fyrir Zoom.

Vefnámskeiðin eru opin öllum íbúum á Vestfjörðum og þátttakendum að kostnaðarlausu. Námskeiðin eru auglýst á heimasíðu miðstöðvarinnar frmst.is og á Facebook. Skráning er á heimasíðunni eða í síma 456-5025 en jafnan eru 15-20 pláss á hverju námskeiði. Fræðslumiðstöð sendir svo skráðum þátttakendum Zoom tengil inn á námskeiðin. Auðvitað er hægt að fá leiðbeiningar og aðstoð við að tengjast hjá starfsfólki miðstöðvarinnar.

Tvö námskeið eru nú þegar búin, Forræktun mat- og kryddjurta með Auði Ottesen og Matseðill vikunnar, undirbúningur og innkaup með Salóme Ingólfsdóttur. Tvö námskeið eru komin á dagskrá eftir páska, það eru námskeiðin Á eigin skinni með Sölva Tryggvasyni og Þarmaflóran með Önnu Ottesen. Fleiri vefnámskeið eru í undirbúningi og rétt er að minna á að við þiggjum ábendingar og hugmyndir að áhugaverðum námskeiðum. Margir starfsmenntasjóðir niðurgreiða námskeið fyrir sína félagsmenn en greiðsluþátttaka er þó mismunandi.

Starfsfólk Fræðslumiðstöðvar þakkar Vestfjarðastofu og starfsmenntasjóðunum fyrir samstarfið um námskeiðin og vonar þátttakendur hafi gagn og gaman af.

Gleðilega páska
Sædís María Jónatansdóttir og starfsfólk Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða

 

Fræðslumiðstöð Vestfjarða á tímum samkomubanns

Þótt Fræðslumiðstöð Vestfjarða hafi í gegnum tíðina boðið upp á einstakar námsleiðir og námskeið í fjarkennslu hefur mikill meirihluti alls náms byggst á því að nemendur mæta á tiltekinn stað allir saman. Þegar samkomubann var sett á 16. mars s.l. kom því óhjákvæmilega hökt í starfsemi miðstöðvarinnar þar sem samkomubannið tók af staðkennslu hópa. Til þess að ljúka verkefnum sem þegar voru farin af stað var sett í annan gír og námið fært yfir í stafræna miðla eftir því sem mögulegt er.

 

Vel hefur tekist til við að aðlaga starfsemina breyttum aðstæðum. Þegar samkomubannið tók gildi voru fjögur íslenskunámskeið í gangi og tvær lengri námsleiðir, Grunnmenntaskóli og Íslensk menning og samfélag. Þessu námi var umbreytt á ótrúlega skömmum tíma og er nú kennt í gegnum fjarfunda búnaðinn Zoom með góðum árangri. Einnig var í gangi viðbótarnám í vélgæslu sem var að hluta til fjarkennt fyrir en er nú alfarið komið í fjarkennslu fyrir utan verklega kennslu sem verður þegar samkomubanni lýkur.

 

Það er hins vegar ekki nóg að ljúka bara því sem byrjað var á, Fræðslumiðstöðin er staðráðin í því að halda áfram að bjóða Vestfirðingum að sækja fræðslu þótt húsnæði miðstöðvarinnar sé lokað og nánast allir starfsmenn að vinna heiman frá sér. Undir lok mars hófst Grunnnámskeið fyrir fiskvinnslufólk sem er fjarkennt að nánast öllu leyti en námsþáttur um skyndihjálp þarf að bíða þar til samkomubanni verður aflétt. Í samstarfi við starfsmenntasjóði og Vestfjarðastofu hefur miðstöðin nú skipulagt nokkur stutt vefnámskeið þar sem lögð er áhersla á að næra líkama og sál, námskeið sem minnka streitu og veita innblástur. Fleiri námskeið eru á teikniborðinu og verða þau auglýst jafn óðum bæði á vef miðstöðvarinnar og á Facebook.

 

Stafrænir miðlar hafa einnig nýst til að bjóða áfram upp á náms- og starfsráðgjöf og sama á við um raunfærnimat. Þá hafa fyrirtæki og stofnanir leitað til Fræðslumiðstöðvarinnar um aðstoð við að bjóða starfsfólki sínu upp á fræðslu á þessum skrítnu tímum þar sem hefðbundin starfsemi hjá mörgum hefur farið úr skorðum. Miðstöðin tekur vel í öll slík erindi og er tilbúin að hjálpa til við að finna lausnir. Hafið endilega samband í gegnum síma eða tölvupóst: 456-5025 og frmst@frmst.is. Ekki koma :)

Eldri færslur